Sem ungur strákur á Akranesi upplifði ég marga veiðitúra á svæði SVFA, en karl faðir minn var mjög áhugasamur stangveiðimaður. Margar minningar á ég frá þessum tíma, varðandi veiði, helst þær að karlinn kom oft heim með svo mikið af laxi að gólfið í þvottahúsinu var þakið laxi. Laxinn var svo eldaður og mikið var hann (og er enn) góður með nýjum kartöflum og sméri. Mín gæfa var að oft var um fjölskylduveiði og flengdumst við um í gamla rússnenska eðalvagninum,
sérstaklega í dalina og þá helst í Haukadalsá, Flekkudalsá og Fáskrúð. Okkur systur fannst alltaf einstaklega gaman að vera í Flekku, þaðan eigum við margar og góðar minningar. Ein er þó minning sem ekki var skemmtileg en það var þegar fiskiflugur höfðu hertekið húsið og við þurftum að byrja túrinn á að fæla þær út, sem tókst. Okkur þótti veðursæld Flekkudals mikil, en hinsvegar er í minningunni ávallt vont veður í Fáskrúð. Það var því ekki Fáskrúð sem heillaði sérstaklega þegar kom að því að ég fór sjálfur að veiða fyrir alvöru, heldur var Flekka, Haukan og fleiri aðrar ár ofar á vinsældalistanum.
Í Fáskrúð fór ég þrátt fyrir allt á undan hinum ánum, og kannski vegna minninganna, kom áin mér mikið skemmtilega á óvart og hefur síðan verið ómissandi hluti af veiðisumrinu. Það var 1998 sem ég fór fyrst í Fáskrúð og í veiðibók sem ég held stendur eftirfarandi texti um þessa veiðiferð:
Fór í fyrsta skipti til “Laxveiða” í straumvatni. Farið var í Fáskrúð í september, Jón Kr. Heimir, Hafsteinn og ég. Kjartan var fenginn með sem leiðsögumaður. Áin var mjög vatnsmikil og svo mikið vatn að ekki var vætt yfir hana fyrir ofan Katlafossa. Fyrsti laxinn hjá mér kom úr veiðistað 35 Breiðunni. Kjartan lýsti yfir að ekki veiddist neitt á þessum stað en þar sem Hafsteinn skrapp upp í bíl áður en við löbbuðum upp í foss kastaði ég af rælni 1” svörtum Frances. Stóð ég á suðurbakka og kastaði á stein sem stóð upp úr vatni nálægt norðurbakka. Fékk ég töku og náði 5 pd. Laxi. Aftur var kastað skömmu síðar með sömu flugu og þá fékk ég annan fisk á sama stað. Hafsteinn náði síðan einum á maðk á þessum stað. Hafsteinn fékk hinn fiskinn sem hann veiddi í þessum túr í lukkupolli. Ég fékk alls þrjá laxa en minni rekur ekki til hvar sá þriðji veiddist.
Svo mörg voru þau orð, ekki amarlegt að fá fyrstu flugulaxana í fyrsta túrnum og ekki skemmdi heldur fyrir að stórgædinn Kjartan Guðmundsson, sem manna best þekkir Fáskrúð, taldi ekki svara kostnaði að reyna við Breiðuna, en svo sannarlega var Breiðan góð við okkur þá enda vatn mikið í ánni. Eftir þessa ferð 1998 hef ég farið á hverju ári í Fáskrúð og oftast tvisvar á sumri. Ég veiði eingöngu á flugu og hef gert það síðustu 4-5 ár. Fáskrúð er nú ekki þekkt fyrir að vera mikil fluguveiðiá eins og sést á meðfylgjandi stöplariti sem ég tók saman um veiði eftir agni fyrir árin 2001-2003, en ég hef ekki enn fundið stað í henni þar sem ég get ekki veitt á flugu, og hef ekki orðið fyrir að vera sérstaklega fisklaus í ánni.
Fáskrúð líður fyrir hve vatnsbúskapur hennar er takmarkaður, á þurrum sumrum má vaða hana á spariskónum, en öðrum stundum er hún eins og fljót yfir að líta. Þegar vatnleysið er sem verst safnast fiskurinn saman við brúna á göngutíma og þá er oft hægt að gera góða veiði, en á móti er leitt að sjá að fiskurinn hefur engin tök á að komast upp í ána, hann er einfaldlega tíndur upp í brúarstrengjunum efri og neðri. Við höfum oft rætt um að það þyrfti hreinlega að stjórna þessari veiði úr efri brúarstreng þannig að ef vatnsmagn leyfir, að fiskurinn hefði tök á að komast upp í ána áður en hann er veiddur, og oftast drepinn.
Einn veiðistað lít ég á með sérstakri eftirvæntingu í hvert sinn. Hér er ég að ræða um efri streng og þá einnig sérstaklega seinni part sumars og ekki síst í góðu vatni. Efri strengur hefur oft gefið mér mjög góða veiði og sérstaklega er mér minnistæð ferð sem við fórum til að veiða í klak fyrir 2-3 árum síðan og fékk ég þá í efri streng að mig minnir 7-8 laxa, alla auðvitað á flugu, green butt og rauðan frances á gullkrók, stærðir 12-14. Ég hef líka kvatt efri streng án fisks og er það bara skemmtilegt að veiðin sé þannig að ekki sé á vísan að róa. Aðrir veiðistaðir sem eru í uppáhaldi er t.d. Hellufljótið, en það á enn eftir að gefa mér fisk. Alltaf kasta ég í Helluna, en því miður ávallt án árangurs. Heiðursmennirnir hér á myndinni hafa oft fengið góða veiði í Hellunni þegar við erum saman í holli, en ekki mér. Kemur bara næst hjá mér.
Fáskrúð er sem áður seigir hluti af hverju veiðisumri hjá mér og ég get ekki hugsað mér að fara í gegnum sumarið án þess að koma þangað. Ég hef hinsvegar áhyggjur af þessari perlu, Ég fékk að lesa skýrslu sl. sumar sem skagamaðurinn Sigurður Már Einarsson hjá Veiðimálastofnun hafði gert eftir að hafa seiðamælt ána. Fram kom að seiðabúskapur er svo til enginn í ánni, og veiði er því haldið uppi af sleppingum seiða í ána. Mér finnst mjög erfitt að hugsa til þessa, við veiðimenn eigum ekki að ganga þannig um auðlindina að hún sé
skilin eftir í andaslitrunum. Það var þv
í ánægjulegt að sjá að SVFR og síðan SVFA settu kvóta á veiðina í ánni og vonandi kemur hún í veg fyrir að menn ofveiði ána við aðstæður s
em m
yndast þegar rignir eftir langvarandi þurka. Ég vil hvetja veiðimenn til að hlífa laxi í Fáskrúð og minni á að rannsóknir sýna að 97% laxa lifa af viðureign við veiðimann, jafnvel 2-3 yfir sumarið og ná að hrygna. Það er hinsvegar 100% öruggt að lax sem er sleginn í hausinn hrygnir ekki til að viðhalda stofninum, en er það ekki það sem við veiðimenn viljum?
Bestu kveðjur með ósk um gleðilegt veiðisumar.
Ingólfur Þorbjörnsson
Related Images: