Fáskrúð í Dölum

Katlafossar

Katlafossar

Myndasafn

Fáskrúð í Dölum er fjölbreytt, skemmtileg og krefjandi laxveiðiá sem er ofarlega í huga margra félagsmanna Stangaveiðifélags Akraness, enda félagið haft ítök í ánni mestmegnis frá árinu 1942.

Fáskrúð skilur að Laxárdalshrepp og Hvammssveit en áin á upptök sín á Gaflfellsheiði tugi kílómetra frá sjó og fellur svo til sjávar í Hvammsfjörð um 8 km fyrir norðan Búðardal. Áin liðast ein um 20 km leið til sjávar en laxgenga svæði hennar er um 12-14 km langt og hefur 36 merkta veiðistaði. Áin getur talist frekar aðgengileg sem laxveiðiá þrátt fyrir stórgrýtt og magnað landslag á köflum.

Svæðið nær frá Katlafossi niður að sjó en þar er að finna veiðistaðina Neðri- og Efri Brúarstrengi og sjást þeir vel þegar ekið er yfir þjóðvegsbrúna við ós árinnar.
Í góðu vatni kemst stöku lax upp fyrir efsta veiðistaðinn Katlafoss og eru þess dæmi að fengist hafi þar laxar. Einungis er þar um 400 m. kafla að ræða og hreint ómögulegt fyrir laxinn að ganga enn lengra þar sem svokallaður Efri-Foss hindrar laxgengd með öllu.

Rúmlega þriðjung veiðisumarsins er veitt á 3 stangir í Fáskrúð annars á 2 stangir.

Afar fjölbreyttir veiðistaðir eru í ánni og skiptast á fallegar breiður og stríðari strengir. Leyfilegt agn er fluga.

Veiðihúsið við ána er hús landi Ljáskóga. Þar er aðbúnaður allur hin besti og gistiaðstaða fyrir allt að 6 einstaklinga.  Sumarið 2018 verður inn í veiðileyfi uppábúið rúm og þrif eftir hvert holl.  Veiðimenn skulu ganga vel um veiðihúsið og ef húsið er óeðlilega óhreint eftir þeirra dvöl bera þeir kostnað af þrifum. 

Í húsinu eru reykingar bannaðar.

 

– Gagnlegar upplýsingar –
Staðsetning: Vesturland, um 8 km fyrir norðan Búðardal. Í um 120 km fjarlægð frá Akranesi og 160 km frá Reykjavík. Veiðihús Fáskrúð gps hnit: Hnit: 65° 9.742’N, 21° 41.746’W (ISN93: 373.646, 520.796)

Akstursleið frá Akranesi/Reykjavík: Þjóðvegur (1) í gegnum Borgarnes. Ekinn er Vestfjarðarvegur (60) yfir Bröttubrekku í gegnum Búðardal. Stuttu síðar er komið að afleggjaranum að Fáskrúð á hægri hönd, merkt Ljárskógar. 

Veiðisvæði: 12-14 km langt. Merktir veiðistaðir eru 36 talsins, frá Katlafossi niður að þjóðvegsbrú.

Veiðivegur: Í eðlilegu árferði við Fáskrúð getur talist nóg að vera á hvaða 4×4 bifreið sem er. .

Tímabil: Veitt er frá 30. júní til 30. september. SVFA hefur til umráða helming veiðidaga á móti eigendum Ljáskóga eða aðra hverja sex daga.

Veiðileyfi: Hvert veiðileyfi gildir ýmist fyrir tvær eða þrjár stangir í tvo daga. Veiði hefst eftir hádegi á komudegi og lýkur kl. 13 á brottfarardegi. Hafið ávallt veiðileyfi meðferðis.

Umgengni: Veiðimenn mega koma í hús 1 klst. fyrir veiðitíma en brottfarardag skulu þeir rýma hús 1 klst. eftir að veiðitíma líkur. Ef upp koma vandamál hafið samband við formann félagsins (Búi s. 820-6318) eða veiðivörð.

Daglegur veiðitími: Veitt er frá kl. 7-13 og kl.16-22 fram til 14. ágúst. Eftir 14. ágúst er seinni vaktin færð fram um klukkutíma eða frá kl. 15-21.

Leyfilegt agn: Fluga.

Kvóti: Drepa má 1 lax (hæng) á stöng á dag. Skylt er að sleppa laxi yfir 69 cm. lengd. Skylt er til að sleppa öllum hrygnum skv. ráðleggingum fiskifræðings til að freista þess að bæta viðgang fiskistofn árinnar.

Veiði síðastliðin ár: Meðalveiði í ánni sl. 10 ár (2006-2015) eru 264 laxar.

Veiðibók: Er staðsett í veiðihúsinu.