ANDAKÍLSÁ

Andakílsá er þægileg og aðgengileg laxveiðiá í Borgarfirði sem lætur ekki mikið yfir sér enda er hún afar lygn og róleg. Áin er sem einn samfelldur fluguveiðistaður og hefur notið sívaxandi vinsælda veiðimanna sem hana heimsækja.

Áin fellur úr Skorradalsvatni í Andakílsárfossa og liðast þaðan u.þ.b. 8 km löng um sléttlendið niður í Borgarfjörð. Einungis er veitt á svæðinu fyrir ofan brú við þjóðveginn.  Áður var einnig veitt á neðan brúar og þá helst reynt við bleikju.  Stofn hennar hefur átt undir högg að sækja og er því friðuð eins og sakir standa.

Þrátt fyrir að vera þekkt smálaxaá nú á dögum skipar Andakílsá sér hinsvegar sess í sögunni með þeim ám sem eiga stærstu stangaveiddu laxa landsins. Snemma á fimmta áratug síðustu aldar var dreginn á land í Litluhamarskvörn 34 punda lax og árið 1948 veiddist þar 33 punda lax en nú er öldin önnur.

Veiðihúsið við Andakílsá er þægilega staðsett stuttan spöl frá ánni en frá húsinu sést vel til neðri hluta veiðisvæðisins. Svefnrými er fyrir 7 manns í tveimur svefnherbergjum. Í baðherbergi hússins er sturta og við húsið er gasgrill. Við húsið er heitur pottur. 

Gagnlegar upplýsingar

Staðsetning: Á vesturlandi. Í u.þ.b 39 km fjarlægð frá Akranesi og 77 km fjarlægð frá Reykjavík. Veiðihús GPS hnit: 64°33’4.29″N, 21°42’36.56″W

Akstursleið: Akrafjallsvegur (51) og Þjóðvegur (1) áleiðis til Borgarness. Ekin er Borgarfjarðarbraut (50) yfir Andakílsá og beygður er afleggja ri til hægri inn á Skorradalsveg (508). Spölkörn þaðan er afleggjarinn að veiðihúsinu, t il hægri.

Veiðisvæði: Merktir veiðistaðir eru 15 talsins auk nokkura ómerktra.
Að efsta hluta veiðisvæðisins er haldið áfram frá veiðihúsinu inn Skorradalsveg (508) og síðan beygt til hægri inn á Andakílsárvirkjunarveg (5113).
Leyfilegt er að veiða á öllu laxasvæðinu en það nær frá Andakílsárfossum niður að brú við þjóðveg.

Veiðivegur: Fólksbílafært er að flestum veiðistöðum eða frá nr. 1 til 8 og einnig að veiðistað nr. 15 við þjóðveg. Aðrir veiðistaðir eru í göngufæri.

  • Það er veitt á 2 stangir, eingöngu leyfð fluguveiði með fluguveiðistöngum.
  • Veiðitími er frá:
    kl. 07.00 – 13.00 og frá 16.00 – 22.00 frá 20/6 til 15/8
    kl. 07.00 – 13.00 og frá 15.00 – 21.00  frá 16/8 til 14/9
    kl. 07.00 – 13.00 og frá 14.00 – 20.00  frá 15/9 til 28/9
  • Það mega 2 veiðimenn deila stöng.
  • Það er kvóti upp á 2 laxa/stöng á dag, undir 69 cm., eftir það má veiða og sleppa.
  • Allri veiddri bleikju skal skilyrðislaust sleppt aftur í ána!
  • Gæludýr eru ekki leyfð í veiðihúsinu.
  • Gestir gangi vel um veiðisvæði, veiðihús og umhverfi hússins og taki með sér allt rusl sem til fellur á dvalartíma.
  • Allur akstur utan vegslóða er stranglega bannaður.
  • Brot á veiðireglum varða skilyrðislausum brottrekstri úr ánni sem og upptöku afla og veiðarfæra.  Allt eftir því sem við á hverju sinni.
  • Það er svefnpláss fyrir 7 manns í húsinu í tveimur svefnherbergjum.  4 kojur í öðru herberginu og hjónarúm og lítil koja í hinu herberginu.
  • Gæta skal varúðar við notkun á heitum potti.  Athygli skal vakin á því að notkun búnaðarins er á eigin ábyrgð.
  • Í dagsveiði og 1/2-1/2 hollum: Gestir koma sjálfir með sængur/sængurföt og sjá sjálfir um frágang og þrif að aflokinni dvöl.
  • Við óskum eftir að menn skrái allan afla í veiðibók sem og taki og skrái hreistursýni af drepnum fiski.
  • Varðandi brottfarir og komu þá göngum við útfrá :

2 daga holl og 1/2 – 1/2   

      • Koma 1 klst. fyrir veiðitíma
      • Brottför.  Innan 1 klst. eftir veiðitíma (Eftir 15/8 væri nauðsynlegt að menn væru búnir að tæma hús kl. 12.00 þar sem hvíld styttist um 1 klst.)

Stakir dagar

      • Koma kvöldið áður.  1 klst. eftir að veiðitíma lýkur
      • Brottför.  Innan 1 klst. eftir veiðitíma.