Um félagið

Fyrsta dag maímánaðar 1941 var stofnfundur Stangaveiðifélags Akraness haldinn og mættu 11 veiðimenn til fundarins. Þriggja manna stjórn var kosin: Einar Helgason (formaður), Einar B. Vestmann og Jón Kr. Guðmundsson.

Fyrstu árin var félagið lokað félag og biðlistar veiðimanna sem óskuðu eftir inngöngu mynduðust. Árið 1948 var samþykkt að opna félagið fyrir öllum sem vildu ganga í það og óx fjöldi félagsmanna hratt. Á sjöunda og áttunda áratugnum voru þeir hátt í fjögur hundruð.

Um svipað leyti og félagið var opnað 1948 var hið sérstæða úthluturnarkerfi félagsins á veiðileyfum tekið upp sem enn er í gildi. Það er þannig að félagsmenn draga númer og velja sér veiðidaga þegar að þeirra afgreiðslunúmeri kemur. Skiptir máli að draga lág númer til þess að ná í sem besta veiðidaga.

Þegar SVFA var stofnað voru fá stangaveiðifélög starfandi og slagurinn um veiðiárnar ekki eins mikill og síðar varð. Líta menn gjarnan til þessara fyrstu ára í sögu félagsins sem dýrðartíma sem tæplega mundi renna upp að nýju.

Laxá í Dölum var fyrsta áin sem félagið hafði og fljótlega bættust við árnar Fáskrúð, Laxá í Leirársveit og Haukadalsá. Félagið hefur verið með aðstöðu í fjölmörgum öðrum ám svo sem Víðidalsá, Langá, Miðfjarðará, Blöndu og Svartá, Grímsá, Flekkudalsá, Andakílsá og Gljúfurá.

Þær ár sem félagið hefur verið með lengst á leigu eru Fáskrúð í Dölum, Haukadalsá og Flekkudalsá. Haukadalsá missti félagið árið 1978 eftir 21 árs leigu og Flekku árið 1993 sem félagið hafði haft á leigu frá árinu 1958. Á árunum 1994 – 1999 var félagið með Hólmsvatn í Hvítársíðu á leigu í félagi við Stangaveiðifélag Borgnesinga.

Veiðisvæði:
SVFA er leigutaki að Fáskrúð á móti SVFR og fær því helmning veiðidaga í ánni.
SVFA hefur yfir að ráða fjórðungi veiðidaga í Andakíl skv. samningi við SVFR.
Félagsmenn SVFA hafa undanfarin ár geta veitt endurgjaldslaust í vötnunum þremur í Svínadal, Eyrarvatni, Þórisstaðavatni og Geitabergsvatni.

Almennar upplýsingar:
Stangaveiðifélag Akraness
bt. Skúli Garðarsson
Kirkjubraut 28
300 Akranes
Kt:  620269-2209

Félags- og inntökugjöld:
Árgjald: 6.500 kr. ekkert inntökugjald.