Fáskrúð í Dölum – Fín veiði um helgina

Skagahollið sem var í Fáskrúð um helgina landaði 12 löxum. Alls var sett í 17 laxa en 5 af þeim höfðu betur í baráttu við veiðimenn.

Áin er þá komin í 22 laxa og eru þeir enn að veiðast mest á miðsvæðinu. Efri Brúarstrengur hefur gefið 3 laxa í sumar en næsti veiðistaður sem hefur gefið lax er Tjaldkvörn.

 

Laxinn virðist þó greinilega vera á ferðinni því veiðistaðir sem hafa verið að gefa undanfarið eru m.a. Viðauki, Leynir, Fýla, Silfurkvörn, Tjaldkvörn og Eirkvörn. Næsta vika í Fáskrúð verður á vegum SVFR og svo taka næst við dagar SVFA þann 18. júlí.

 

 

 Mynd; Brúarstrengirnir við Fáskrúð (Ljósm. AMK)

Related Images:

Andakílsá – 11 laxar úr Sleifarkvörnum

Skagamenn sem áttu 8 – 10. júlí við Andakílsá fengu 22 laxa og aldeilis ekki allt af hefðbundnum stöðum. Veiðistaðir þrjú, fjögur og sex gáfu þó einhverja laxa en svo voru að koma laxar úr minna þekktum veiðistað.

Guðmundur Valsson fór fyrir hollinu og sagði okkur frá því að þeir félagar hafi landað samtals 11 löxum úr veiðistað númer 12 eða Sleifarkvörnum. Mest fengu þeir á flugu á þessum tveimur dögum í kílnum eða 18 af 22 löxum og var Sunray Shadow sterk.

Veiðistaðurinn Sleifarkvarnir sést vel þegar setið er út á verönd við veiðihúsið og horft niður með ánni. Þetta er álitlegur veiðistaður og það hefur verið gaman að hitta á þann silfraða þarna.

Næstu dagar félagsins við Andakílsá verða 16 – 18. júlí og svo aftur 24 – 26. júlí.

 

Mynd; Ofarlega við Nátthagahyl í júlí 2008 (Ljósm. AMK)

Related Images:

Fáskrúð í Dölum með 9 laxa

 

Stjórnar og árnefndarmenn eru nú við veiðar í Fáskrúð. Eftir þrjár vaktir höfðu fjórir laxar komið á land. Tveir úr Eirkvörn, einn úr Viðauka og einn úr Efri-Stapa. Lítið sem ekkert af nýjum laxi er að ganga.

 

Frá 30. júní til 7. júlí hefur áin skilað 9 löxum í bók. Sá fyrsti veiddist 1. júlí í Efri Barka.

 

Nú í byrjun tímabils hefur ekki fengist lax neðar en í veiðistaðnum Tjaldkvörn. Aðrir veiðistaðir eru Neðri-Stapi, Efri-Stapi, Viðauki, Viðbjóður, Eirkvörn og Efri-Barki.

 

Við færum frekari fregnir af Fáskrúð þegar þær berast.

 

 

Mynd; Eirkvörn við Fáskrúð í Dölum (Ljósm. AMK)

Related Images:

Laxá í Leirársveit í 88 löxum

Laxá í Leirársveit komin í 88 laxa

Holl sem lauk veiðum á vegum félagsins í dag við Laxá landaði rúmlega 20 löxum á tveim dögum samkvæmt veiðibók. Áin er nú komin í samtals 88 laxa.

 

Laxarnir í hollinu fengust víða og er einn t.d. skráður fyrir neðan Stekkjarnes en aðallega er veiðin frá Laxfossi og upp að Miðfellsfljóti. Enn er ekki kominn lax af efsta veiðistaðnum Breiðunni en einn kom úr Holunni þann 2. júlí. 

Alls eru þá komnir 44 úr Laxfossi, 17 Miðfellsfljót, 5 Sunnefjufossi, 5 af Grettisbreiðu, 4 Eyrarfossi, 3 Vaðstrengjum, 2 Ljóninu, 2 Urðarstreng, 1 Holunni, 1 Grettisstrengjum, 1 Merkjastrengjum, 1 Bakkafljóti, 1 Kvörninni og 1 neðan Stekkjarnes.

 

Næstu dagar á vegum félagsins í Laxá verða 7 – 9 september og verður fréttaflutningur af svæðinu lítilsháttar þangað til nær dregur september.

 

Mynd; Þorsteinn Vilhjálmsson glímir við lax í Laxfossi þann 26. júní 2009 (Ljósm. AMK)

Related Images:

Fyrsti flugulaxinn úr Andakílsá – og annar til viðbótar!

 

Árni Ingólfsson með fyrsta flugulaxinn úr Andakílsá 2009

Fyrsta flugulaxinum úr Andakílsá var landað nú laust fyrir klukkan hálf níu í kvöld. Um hálftíma síðar kom annar á land einnig á flugu.

 

Laxarnir fengust í Efri Fossbakkahyl og fengu þeir bræður Árni og Jónmundur Ingólfssynir laxana á rauða frances. Árni tók þann fyrri en það var fallegur lúsugur 5 punda hefðbundinn Andakílsárlax. Jónmundur kom stuttu síðar og landaði einum eins til viðbótar og kórónaði daginn.

Morgunvaktin var heldur róleg hjá þeim félögum en strax í kvöld urðu þeir varir við líf í veiðistöðum þrjú og fjögur. Það má því segja að júní - júlí gusan sem við þorðum að búast við sé farin að gera vart við sig.

Áin er nú komin í fimm laxa og hefur þar með jafnað júníveiðina frá því í fyrra. Ánægjulegt er að sjá að fjórir af þeim fimm löxum sem komnir eru úr kílnum hafa komið í veiðistað fjögur eða Efri Fossbakkahyl.

 

Fréttaritari var á staðnum þegar fyrri laxinum var landað í kvöld og náði nokkrum myndum. Myndasyrpu má sjá með því að smella á meira.

– Við munum næst koma með fréttir af Fáskrúð í Dölum, Andakílsá og Laxá í Leirársveit um eða eftir næstu helgi. Góðar stundir.

 

Mynd; Árni Ingólfsson með fyrsta flugulaxinn úr Andakílsá sumarið 2009 (Ljósm. AMK)

 

Myndasyrpa:

Árni búinn að setja í hann og spennan leynir sér ekki. (Ljósm. AMK)

 

Bræðurnir bíða átekta. (Ljósm. AMK)

 

Tilraun eitt við löndun. (Ljósm. AMK)

 

Út í vildi laxinn aftur og því var hann þreyttur aðeins lengur. (Ljósm. AMK)

 

Stutt í að sá silfraði endi á mölinni. (Ljósm. AMK)

 

Kominn í háfinn góða, þessi átti ekki að sleppa – enda dýrmætur lax fyrir veiðimann og félaga.(Ljósm. AMK)

 

Deginum svo sannarlega bjargað fyrir horn. (Ljósm. AMK)

 

Bræður að vonum sáttir við aflann. (Ljósm. AMK)

 

Árni með fyrsta flugulaxinn úr Andakílsá sumarið 2009 – fallegur 5 pd. lax tekin á rauða frances. (Ljósm. AMK)

 

 

Related Images:

Andakílsá – Tveir laxar á land

Frá Andakílsá 2008

Frekar rólegt hefur verið við Andakílsá síðustu daga en fyrstu laxarnir frá því í opnun komu á land í dag sunnudaginn 28. júní. Ein 2.5 kg hrygna fékkst í veiðistað Þrjú og ein 3.2 kg hrygna við Efri Fossbakkahyl. Veiðimenn urðu ekki varir við neina laxa fyrir utan þessa tvo. Allir þrír laxarnir til þessa hafa fengist á maðk.

Næstu daga munu skagamenn standa við veiðar í Andakíl og er óskandi að það komi góð gusa af laxi upp í ána í tilefni af því. Um mánaðarmótin júní og júlí í fyrra lentu veiðimenn í göngu og kraumuðu strengirnir í veiðistöðum númer 3 og 6 á tímabili.

Þegar fréttaritari kíkti við í kílnum í kvöld var dimmt yfir, rigningarúði og logn.

Af silungasvæðinu eru komnar 12 bleikjur og 1 lax. Laxinn fékkst á milli brúa á maðk þann 27. júní og vó 3.5 kg. Búast má við því að laxarnir verði eitthvað fleiri af silungasvæðinu í sumar þar sem vel hefur gengið að selja á svæðið en oft hafa veiðitölur liðið fyrir litla ástundun.


Mynd; Fallegt augnablik frá mánaðarmótum júní og júlí í fyrra þegar fyrsta almennilega gangan af laxi kom í ána. (Ljósm. AMK)

Related Images:

Laxá í Leirársveit komin í 18 laxa

 

Laxá í Leirársveit 26. júní - Feðgarnir með afla úr Laxfossi

Nokkuð af laxi hefur kroppast upp síðan áin var opnuð með 8 laxa veiði um síðastliðna helgi. Nú hefur áin gefið samtals 18 laxa á 6 dögum. Undanfarna daga hafa verið að koma á land allt frá einum og upp í þrjá á dag. Þetta gerir meðaltal upp á þrjá laxa á dag sem er þokkalega gott en júníveiðin hefur margoft verið tregari en þetta.

 

Eftir opnun hafa flestir laxarnir komið úr Laxfossi fyrir utan einn sem kom af Grettisbreiðunni miðvikudaginn 24. júní og einn í Eyrarfossi fyrir hádegi föstudaginn 26. júní, þar var um að ræða myndarlega 84 cm hrygnu.

 

Nýjir fiskar renna sér inn í Laxfoss daglega og laxinn er greinilega á ferðinni því veiðimenn sem voru við ána á fimmtudaginn settu í tvo laxa í Merkjastrengjum en misstu báða.

Fyrir þá sem lítið þekkja til á svæðinu eru Merkjastrengir stutt fyrir ofan Breiðafoss, Ljónið og Sunnefjufoss eða á næsta svæði fyrir ofan Laxfoss.

Á miðsvæðinu frá Merkjastrengjum og upp að Eyrarfossi hefur lítið sem ekkert verið að gerast. Laxastiginn í Eyrarfossi opnaði fimmtudagskvöldið 25. júní og má þá búast við því að laxar gangi fram á efri svæðin og upp í Eyrarvatn fljótlega.

 

Alls eru þá komnir 12 úr Laxfossi, 2 í Sunnefjufossi, 2 í Eyrarfossi, 1 úr Vaðstrengjum og 1 af Grettisbreiðunni.

 

Á fimmtudaginn fékk Þorsteinn Vilhjálmsson málari þrjá laxa á stuttum tíma úr Laxfossi og bauð upp á sannkallaða veiðisýningu fyrir viðstadda. Tveir laxanna tóku flugu og í bæði skiptin óðu þeir stjórnlausir niður úr hylnum. Þeim var svo að lokum landað á eyrinni niður af Vaðstrengjunum. Myndasyrpu má sjá með því að smella á meira…

 

Mynd; Þorsteinn Vilhjálmsson ásamt sérlegum aðstoðarmanni með fyrsta laxinn af þremur þann daginn. (Ljósm. AMK)

 

Myndasyrpa – Staðið við veiðar í Laxfossi fimmtudaginn 25. júní 2009

 

 Af látbragðinu mátti sjá að málarinn var ekki í fyrsta skipti í fossinum. (Ljósm. AMK)

 

 

Steini strax búinn að setja í þann fyrsta (Ljósm. AMK)

 

Eftir stutta stund í hylnum er stefnan tekin niður Vaðstrengina. (Ljósm. AMK)

 

Mikil hlaup og mikið gaman. (Ljósm. AMK)

 

 Stutt í löndun. (Ljósm. AMK)

 

Fyrsta laxinum landað snyrtilega. (Ljósm. AMK)

 

 Svona á að taka þetta, feðgarnir með fallegan lax eftir skemmtilega viðureign. (Ljósm. AMK)

 

Málarinn kominn með annan lax og allt í keng. (Ljósm. AMK)

 

Síðari laxinn dansaði á sporðinum og sprengdi hylinn. (Ljósm. AMK)

 

Og þá er bara að hlaupa !
(Ljósm. AMK)

 

Þarna var eltingarleikurinn rétt að byrja, þessum var landað mun neðar en fyrri laxinum. (Ljósm. AMK)

 

Við þökkum Steina fyrir að fá að mynda allan hamaganginn. Svona á veiði að vera !

 

Related Images:

Laxá í Leirársveit – 10 laxar fyrstu tvo dagana

Frá Laxa í Leirársveit - september 2008
Laxá í Leirársveit opnaði að morgni sunnudagsins 21. júní og endaði dagurinn í 8 löxum.

Af stærri löxum er það að frétta að ein 80 cm hrygna fékkst í Laxfossi á flugu og einn 80 cm hængur í Eyrarfossi á Sunray Shadow. Löxunum var báðum sleppt að lokinni mælingu. Einn 5.5 kg fiskur kom svo upp úr í Sunnefjufossi á maðk og einn 5.0 kg úr Vaðstrengjum.

 

Dagur tvö við Laxá var heldur rólegri en þá komu aðeins tveir laxar á land úr Laxfossi á morgunvaktinni og enginn á þeirri síðari samkvæmt veiðibók. Samtals 10 laxar á tveim dögum verður að teljast sæmilegt en veiðimenn bíða spenntir eftir dögum SVFA í ánni sem eru 5-7 júlí.

 

Alls eru þá komnir 6 úr Laxfossi, 2 í Sunnefjufossi, 1 í Eyrarfossi og að lokum 1 úr Vaðstrengjum.

 

Andakílsá hafði í gærkvöldi ekki gefið neinn lax frá því á opnunardaginn 20. júní.

 

Mynd; Laxá í Leir – Landað við Bakkastreng í september 2008. (Ljósm. AMK)

Related Images:

Andakílsá – Einn lax úr opnun

Andakílsá 2009 - Fyrsti laxinn á opnunardaginn

 

Andakílsá opnaði eins og kunnugt er að morgni 20. júní og voru það bjartsýnir skagamenn sem mættir voru til veiða. 

Að sögn veiðimanna var rólegt yfir veiðiskapnum yfir daginn í heild en engu að síður dró til tíðinda á fyrstu vaktinni en þá gerðist eitthvað sem enginn bjóst við. Settu þeir í og lönduðu fallegri lúsugri 5 pd. hrygnu við veiðistaðinn Fossabakka Efri (nr 4).

Ekki vitum við hvað það er langt síðan lax fékkst síðast á opnunardegi í Andakíl og hvað þá á þessum veiðistað en þessi fornfrægi staður hefur verið mjög dapur og seinn í gang undanfarin ár. Veiðimenn urðu einnig varir við eitthvað líf, líklega lax, í veiðistað þrjú en þar var tekið í agn veiðimanns og því svo skilað aftur stuttu síðar. Sá fiskur sýndi sig aldrei.

Fleiri laxaferðir urðu veiðimenn ekki varir við en eitt er víst að þessir voru líklega ekki þei
r einu á ferðinni svona snemma.

Það er ánægjulegt að laxinn sé farinn að láta sjá sig í kílnum en samkvæmt veiðibókum SVFR veiddust aðeins örfáir laxar þar í júní í fyrra eða 5 af 839 löxum yfir allt sumarið.

 

Mynd; Fyrsti laxinn úr Andakílsá á opnunardaginn 20. júní (Ljósm. Dóra Þóris.)

Related Images:

Stutt í laxveiðisumarið 2009

Laxá í Leirársveit og Akrafjall (Mynd;amk)

Stutt er í opnanir þeirra laxveiðiáa sem félagið hefur selt veiðileyfi í fyrir sumarið en árnar eru þrjár talsins.

Andakílsá opnar laugardaginn 20. júní en fyrsti dagur félagsins er samt sem áður mánudagurinn 22. júní. Í fyrra fengust laxar fyrstu dagana við veiðistaðinn Nátthagahyl og verður gaman að sjá hvort það sama sé upp á teningnum nú. Júnímánuður hefur undanfarin ár verið afar rólegur í kílnum og göngur ekki byrjað af krafti fyrr en dagatalið segir júlí.

Laxá í Leir opnar að morgni sunnudagsins 21. júní og munum við fylgjast með gangi mála fyrstu dagana en félagið hefur til umráða dögunum 5-7 júlí. Þetta eru flottir dagar og þarna má búast við því að stærri göngurnar fari að láta sjá sig.

Loks opnar svo Fáskrúð í Dölum 30. júní en það kemur í hlut SVFR að eiga fyrstu vikuna í ánni nú. Fyrstu dagar félagsins verða svo frá 6-8 júlí og verðum við með fréttir af Fáskrúð þegar þær berast.

Gleðilegt veiðisumar !

Related Images: