
Nokkuð af laxi hefur kroppast upp síðan áin var opnuð með 8 laxa veiði um síðastliðna helgi. Nú hefur áin gefið samtals 18 laxa á 6 dögum. Undanfarna daga hafa verið að koma á land allt frá einum og upp í þrjá á dag. Þetta gerir meðaltal upp á þrjá laxa á dag sem er þokkalega gott en júníveiðin hefur margoft verið tregari en þetta.
Eftir opnun hafa flestir laxarnir komið úr Laxfossi fyrir utan einn sem kom af Grettisbreiðunni miðvikudaginn 24. júní og einn í Eyrarfossi fyrir hádegi föstudaginn 26. júní, þar var um að ræða myndarlega 84 cm hrygnu.
Nýjir fiskar renna sér inn í Laxfoss daglega og laxinn er greinilega á ferðinni því veiðimenn sem voru við ána á fimmtudaginn settu í tvo laxa í Merkjastrengjum en misstu báða.
Fyrir þá sem lítið þekkja til á svæðinu eru Merkjastrengir stutt fyrir ofan Breiðafoss, Ljónið og Sunnefjufoss eða á næsta svæði fyrir ofan Laxfoss.
Á miðsvæðinu frá Merkjastrengjum og upp að Eyrarfossi hefur lítið sem ekkert verið að gerast. Laxastiginn í Eyrarfossi opnaði fimmtudagskvöldið 25. júní og má þá búast við því að laxar gangi fram á efri svæðin og upp í Eyrarvatn fljótlega.
Alls eru þá komnir 12 úr Laxfossi, 2 í Sunnefjufossi, 2 í Eyrarfossi, 1 úr Vaðstrengjum og 1 af Grettisbreiðunni.
Á fimmtudaginn fékk Þorsteinn Vilhjálmsson málari þrjá laxa á stuttum tíma úr Laxfossi og bauð upp á sannkallaða veiðisýningu fyrir viðstadda. Tveir laxanna tóku flugu og í bæði skiptin óðu þeir stjórnlausir niður úr hylnum. Þeim var svo að lokum landað á eyrinni niður af Vaðstrengjunum. Myndasyrpu má sjá með því að smella á meira…
Mynd; Þorsteinn Vilhjálmsson ásamt sérlegum aðstoðarmanni með fyrsta laxinn af þremur þann daginn. (Ljósm. AMK)
Myndasyrpa – Staðið við veiðar í Laxfossi fimmtudaginn 25. júní 2009
Af látbragðinu mátti sjá að málarinn var ekki í fyrsta skipti í fossinum. (Ljósm. AMK)

Steini strax búinn að setja í þann fyrsta (Ljósm. AMK)

Eftir stutta stund í hylnum er stefnan tekin niður Vaðstrengina. (Ljósm. AMK)

Mikil hlaup og mikið gaman. (Ljósm. AMK)

Stutt í löndun. (Ljósm. AMK)

Fyrsta laxinum landað snyrtilega. (Ljósm. AMK)

Svona á að taka þetta, feðgarnir með fallegan lax eftir skemmtilega viðureign. (Ljósm. AMK)

Málarinn kominn með annan lax og allt í keng. (Ljósm. AMK)

Síðari laxinn dansaði á sporðinum og sprengdi hylinn. (Ljósm. AMK)

Og þá er bara að hlaupa !
(Ljósm. AMK)

Þarna var eltingarleikurinn rétt að byrja, þessum var landað mun neðar en fyrri laxinum. (Ljósm. AMK)
Við þökkum Steina fyrir að fá að mynda allan hamaganginn. Svona á veiði að vera !
Related Images: