Þverá og Selós

Tvær ár renna á milli vatnana í Svínadal.  Sú neðri milli Eyrarvatns og Þórisstaðavatns heitir Selós en sú efri milli Þórisstaðavatns og Geitabergsvatns heitir Þverá.

Veitt er á eina stöng í hvorri á.  Einungis má nota flugu og flugustöng við veiðarnar..  Kvóti er 4 laxar á stöng á dag.  Veitt er frá kl. 7 aða morgni til kl 13.  Hvíld er 2 klst. og hefja má veiði aftur kl. 15 til kl. 21.Fyrirkomulag leyfasölu og veiða er með þeim hætti að 90 veiðidögum í hvorri á er skipt upp í 6 daga pakka sem dreifast yfir tímabilið.  Með því móti skipta 30 veiðileyfishafar veiðisvæðunum með sér.  Hver veiðimaður fær leyfi á rúmlega tveggja vikna fresti.

Veiðimaður með leyfi númer 1 og veiðmaður með leyfi númer 2 veiða sama dag annar byrjar í Selós hinn í Þverá.  Eftir hvíld skipta aðilarnir um veiðisvæði.  Nánara skipulag verður að sjá á söludegi 21. janúar 2017.

Hér má sjá skrá um skiptingu veiðidaga

Related Images:

Lokatölur 2016

Fáskrúð náði aðeins að klóra í bakkann í september en Andakíll var slappur í allt sumar.  Lokatölur í Fáskrúð eru 220 laxar og þar af veiddust 100 laxar í september.  Meðalveiði í ánni frá árinu 2000 eru 254 laxar.

Í Borgarfirðinum var veiðin almennt léleg og var Andakíllinn engin undantekning á því.
Lokatölur sumarsins eru 113 laxar miðað við 379 laxa í fyrra og meðalveiði upp á 265 laxa frá árinu 2000.

veidin_fra_2000

Related Images:

Regnbogi er jafnvel meiri spellvirki en minkurinn

Félaginu hefur borist áríðandi tilkynning frá Landsambandi Stangaveiðifélaga og NASF.

Hjálögð er áfangaskýrsla um tilkynningar um regnbogasilung sem fundist hefur nýlega í ám og vötnum á Íslandi. Hátt í hundrað tilkynningar hafa borist og sýna þær alveg svart á hvítu að verndarsvæðin virka alls ekki.  Fiskurinn fer út um allt land.

Þessir fiskar eru mjög ágengir og eiga ekki heima í íslenskri náttúru. Þeir munu væntanlega valda sams konar skaða hér á landi og annars staðar í heiminum þar sem þeir hafa sloppið út í náttúruna. Hér eru hliðstæðar hættur og með innflutning og dreifingu á minkum á fjórða áratugum. Regnbogasilungur er sýnu verri, ef marka má reynslu annara þjóða.  Þar hefur hann verið mikill smitberi á sýklum, sjúkdómsvaldandi efnum og óæskilegum snýkjudýrum, m.a. sjávarlús sem hvarvetna margfaldast í vistkerfinu. Sem betur fer er enn óvissa um það hvort regnboganum muni takast að að fjölga sér í náttúru Íslands vegna hrygningarmynsturs hans.

Útbreiðsla regnbogasilungsins vekur hins vegar upp mjög alvarlegar spurningar um það hvað muni gerast með lax sem sleppur úr fiskeldiskerjum. Því ef regnbogasilungurinn fer í allar ár eftir að hann sleppur er engin ástæða til að ætla annað en að laxinn geri það sama.  Það hefur verið margsýnt fram á það að ekki er hægt að koma í veg fyrir að fiskur sleppi úr opnum sjókerjum og því er nánast tryggt að laxeldi í opnum sjókerjum muni valda óafturkræfum spjöllum á villtu laxastofnunum. Gangi áætlanir um stóraukið fiskeldi eftir gæti það því verið dauðadómur fyrir íslenska laxinn.

Vinsamlegast dreifið þessum upplýsingum og hjálpið okkur að finna allar þær ár og staði þar sem regnbogi kann að hafa fundist.

Bestu kveðjur,
Orri Vigfússon

formaður, NASF

Á meðfylgjandi mynd má sjá staðfesta dreifingu regnbogasilungs.

Staðfest tilfelli

Related Images:

Fáskrúð

Félagar SVFA hafa nú lokið veiðum í Fáskrúð þetta tímabilið.  SVFR mun loka ánni og veiða til 30. september.

Síðast hollið okkar lauk veiðum 26. sept og  veiddu 14 laxa, 10 á flugu og 4 á maðk.  Miklir vatnavextir og leiðinda veður hefur verið í Dölunum síðustu daga en greinilega talsvert af fiski í ánni sem er jákvætt. Tæplega 100 laxar hafa veiðst það sem af er september í ár eða uþb. helmingur veiddra laxa í sumar.

 

Related Images:

Fáskrúð

Holl sem var að klára veiðar í dag, 12.sept. í Fáskruð, landaði 10 löxum.  Vatnsstaða árinnar lagaðist verulega um helgina og ekki var að sökum að spyrja, veiðin tók að glæðast.

Sex laxar veiddust í Efri streng, tveir úr Laxhyl og sitthvor úr Matarpollum og Viðauka.

Veiðibókin stendur í 165 löxum.

Related Images:

Fáskrúð – fréttir

Veiðimenn sem þekkja Fáskrúð eins og handabakið á sér gerðu góða ferð í Dalina um mánaðarmótin ágúst/september.  Náðu þeir 12 löxum á 2 dögum þar af einum lúsugum en óslegnum úr Hellufljótinu. Fiskarinir voru að veiðast um alla á og lax á öllum helstu stöðum.  Þegar þeir yfirgáfu svæðið 2. september stóð veiðibókin í 135 löxum.  Um sömu mánaðarmót í fyrra var veiðin komin í 195 laxa.  Vatnsbúskapur í Dölunum er búinn að hafa veruleg áhrif á veiðina í ágústmánuði en það er mál veiðimanna að fiskmagn sé í góðu meðallagi.

Related Images:

Andakílsá í byrjun september

Veiðisumarið í Borgarfirðinum hefur almennt verið dapurt.  Veiðin í Andakílsá er engin undantekning, því einungis höfðu veiðst 95 laxar úr ánni þann 4. september.  Vatnsstaða árinnar er í lágmarki.  Til samanburðar voru komnir 307 laxar upp úr ánni á sama tíma í fyrra, sem reyndar var yfir meðallagi.

Related Images:

Fáskrúð í 62 laxa

Á hádegi þann 11. ágúst var Fáskrúð komin í 62 laxa. Þeir staðir sem hafa verið að gefa laxa eru flestir á efra svæði árinnar eða frá Viðbjóð og upp í Katlafossa. Síðan er það Hellufljót af neðra svæðinu. Af öðrum veiðistöðum er lítið að frétta í vatnsleysinu en líkt og víða um land háir það veiðum töluvert.

Related Images:

Fáskrúð – fréttir

Veiðimenn sem veiddu 25.-27. júlí lönduðu 6 löxum og misstu álíka marga.   Sögðust þeir hafa séð talsvert magn af fiski í ánni en vatnsstaðan orðin óþægilega léleg auk þess sem talsverður vindur var í Dölunum þessa daga.  Tökuvilji laxins var lítill og takan grönn.   Um miðjan dag 27. júlí voru 49 laxar skráðir í veiðibókina.

Related Images: