Andakílsá, silungur

Athugið að veiðileyfi á silungasvæði Andakílsár er ekki í boði tímabundið.

Bleikjan hefur nánast horfið af svæðinu og leyfi verða seld þegar ástand bleikjunnar er komið í gott horf.

Leyfishafar á laxasvæðinu hafa neðra svæðið einnig til umráða. Er því í raun bara eitt veiðisvæði í ánni og að hámarki 2 stangir í einu.

 Myndir: Axel Már Karlsson

Veiðisvæðið nær frá brú við þjóðveg niður í ós og er nokkrir kílómetrar að lengd. Sjávarfalla gætir á öllu veiðisvæðinu. Þegar smástreymt er nær flóðið upp í efsta veiðistað en þegar stórstreymt er nær flóðröndin miklu ofar. Sumum finnst best að veiða þegar hálffallið er út, um fjöruna og þangað til byrjar að falla að. Oft er gott að fylgja flóðröndinni.
Sjaldan hefur skilað árangri að veiða á háflóði nema þegar smástreymt er. Þá er hægt að dunda sér í efsta veiðistað og færa sig síðan neðar þegar fellur út. Malarbotn er á öllu svæðinu og breytir sér oft mikið á milli ára og því er erfitt að fullyrða nokkuð um hvaða staður eða staðir verða bestir næsta sumar. Á veturna rífur ísinn oft stórar grastorfur úr bökkunum og ef þær stoppa ofan í dýpstu stöðunum verða þar oft góðir legustaðir næsta eða næstu veiðiár. Allir helstu veiðistaðir eru vel merktir.

Mest er af bleikju á svæðinu og betri matfiskur finnst ekki. Alltaf er von í að fá sjóbirting og einn og einn lax slæðist með. Síðustu árin hefur borið mikið á flundru. Vanir veiðimenn fara sjaldan fisklausir af svæðinu og eiga góða veiðivon en aðstæður á neðra svæðinu setja oft strik í reikninginn.

Aðkoma: Þegar veitt er í 3 – 4 efstu veiðistöðunum ( ca 1 kílómetri) er best að geyma bílinn við brúna og rölta þaðan niður eftir. Þegar veitt er á neðri hluta svæðisins er ekið sem leið liggur niður að Hvanneyri en rétt áður en komið er að þorpinu er beygt til vinstri inn á afleggjara sem er merktur “Andakíll” og ekið eftir honum sem leið liggur niður að gömlu veiðihúsi. Það stendur 100 -150 metrum ofan við veiðistaðinn “Neðri klappir” en hann og næsta nágenni þar fyrir neðan er besti hluti neðra svæðisins.

Aðstæður: Segja má að svæðið skiptist í tvo ólíka hluta. Á efri hluta svæðisins verður áin alltaf tær þegar fallið er út en á neðri partinum er hálfgert happdrætti hvort það gerist. Á öllu svæðinu frá Borgarfjarðarbrú að ósi Andakílsár er mikill leir og kemur hann alltaf inn á aðfallinu en skolast síðan út á útfallinu. Ef áin er mjög vatnslítil í langan tíma hefur aðfallið betur í þessum leirflutningum og safnast þá mikill leir í farveginn og þá getur neðra svæðið orðið óveiðanlegt af gruggi.
Veiðisvæði: Aðgengilegt, fólksbílafært að helstu stöðum, aðrir eru í göngufæri.

Stangafjöldi: Svæðið rúmar vel 3 stangir og er engin sérstök skipting svæðisins milli leyfishafa.
Veiðitímabil: 1. apríl til 30. sept.
Leyfilegt agn: Veiða má á flugu, maðk og spún og er mjög misjafnt hvaða aðferð skilar bestum árangri.
Veiðihús: Gott veiðihús og vel útbúið er við ána. Það stendur rétt ofan við þjóðveg í landi jarðarinnar Skeljabrekku.

Reglur: Veiddir eru heilir dagar og mæting í hús er kl 23.00 til 15 . ágúst og kl 22.00 eftir það, hús skal vera búið að rýma og þrífa fyrir þann tíma á veiðidegi viðkomandi.

Veiðibók: Liggur frammi í veiðihúsi, mikilvægt að skrá allan afla.

Veiðileyfi: Ekki í boði, sjá tilkynningu efst á þessari síðu.