Könnun á stangaveiði á Íslandi

Ágætu félagsmenn

Háskóli Íslands stendur fyrir könnun á meðal stangaveiðimanna þessa dagana. Lesa má nánar um þetta í póstinum hér að neðan.

Hvetjum við félagsmenn okkar eindregið til að taka þátt í könnuninni.

Stjórn SVFA

 

ágæti stangaveiðimaður

Við óskum hér með eftir þátttöku þinni í alþjóðlegri könnun á stangaveiði með áherslu á laxveiði. Markmiðið með þessari könnun er að afla upplýsinga um stangaveiði á Íslandi, svosem þess hvað veiðimenn veiða mikið og hvar, hvaða agn þeir bera fyrir fiskinn og hvert viðhorf þeirra er til þess fyrirkomulags að veiða og sleppa.

Fyrsti hluti könnunarinnar snýr jafnt að silungsveiði sem laxveiði, en í öðrum hluta hennar er lögð sérstök áhersla á að kanna ítarlegar viðhorf stangaveiðimanna til ýmissa atriða varðandi laxveiðar. Í síðasta hluta könnunarinnar er síðan spurt um ýmis almenn atriði er varða kyn, aldur, fjölskyldustærð, menntun og tekjur.

Það tekur um það bil 20 mínútur að svara könnuninni. Við vonum að þú gefir þér tíma til þess þar sem þitt framlag skiptir miklu máli. Farið verður með allar persónuupplýsingar sem trúnaðarmál og niðurstöður birtar með þeim hætti að ekki verður hægt að rekja niðurstöður til einstakra svarenda. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sér um gagnaöflun og undirbúning gagna fyrir frekari vinnslu, en sjálf úrvinnslan verður er í höndum Háskóla Íslands og Norska háskólans í lífvísindum NMBU. Könnunin er unnin í samvinnu við stangaveiðifélög á landinu og munu niðurstöður verða kynntar félagsmönnum að rannsókninni lokinni.

Taka þátt í könnun

Til að taka þátt í könnuninni er smellt á eftirfarandi hlekk:

http://felagsvisindastofnun.catglobe.com/Login.aspx?r=a82f13b7-8819-4683-941f-635bba451b0d&n=1

Einnig er hægt að fara inn á heimasíðu Félagsvísindastofnunar www.fel.hi.is og smella þar á Könnun um stangaveiði á Íslandi.

Við vekjum athygli á því að ef þú gerir hlé á að svara könnuninni getur þú EKKI haldið áfram síðar þar sem frá var horfið.

Könnunin stendur til 9. júní en eftir þann tíma verður ekki hægt að taka þátt í henni. Það er þó engin ástæða til að draga fram á síðasta dag að taka þátt, heldur vinda sér beint í að svara spurningum könnunarinnar!