Fyrsta flugulaxinum úr Andakílsá var landað nú laust fyrir klukkan hálf níu í kvöld. Um hálftíma síðar kom annar á land einnig á flugu.
Laxarnir fengust í Efri Fossbakkahyl og fengu þeir bræður Árni og Jónmundur Ingólfssynir laxana á rauða frances. Árni tók þann fyrri en það var fallegur lúsugur 5 punda hefðbundinn Andakílsárlax. Jónmundur kom stuttu síðar og landaði einum eins til viðbótar og kórónaði daginn.
Morgunvaktin var heldur róleg hjá þeim félögum en strax í kvöld urðu þeir varir við líf í veiðistöðum þrjú og fjögur. Það má því segja að júní - júlí gusan sem við þorðum að búast við sé farin að gera vart við sig.
Áin er nú komin í fimm laxa og hefur þar með jafnað júníveiðina frá því í fyrra. Ánægjulegt er að sjá að fjórir af þeim fimm löxum sem komnir eru úr kílnum hafa komið í veiðistað fjögur eða Efri Fossbakkahyl.
Fréttaritari var á staðnum þegar fyrri laxinum var landað í kvöld og náði nokkrum myndum. Myndasyrpu má sjá með því að smella á meira.
– Við munum næst koma með fréttir af Fáskrúð í Dölum, Andakílsá og Laxá í Leirársveit um eða eftir næstu helgi. Góðar stundir.
Mynd; Árni Ingólfsson með fyrsta flugulaxinn úr Andakílsá sumarið 2009 (Ljósm. AMK)
Myndasyrpa:
Árni búinn að setja í hann og spennan leynir sér ekki. (Ljósm. AMK)
Bræðurnir bíða átekta. (Ljósm. AMK)
Tilraun eitt við löndun. (Ljósm. AMK)
Út í vildi laxinn aftur og því var hann þreyttur aðeins lengur. (Ljósm. AMK)
Stutt í að sá silfraði endi á mölinni. (Ljósm. AMK)
Kominn í háfinn góða, þessi átti ekki að sleppa – enda dýrmætur lax fyrir veiðimann og félaga.(Ljósm. AMK)
Deginum svo sannarlega bjargað fyrir horn. (Ljósm. AMK)
Bræður að vonum sáttir við aflann. (Ljósm. AMK)
Árni með fyrsta flugulaxinn úr Andakílsá sumarið 2009 – fallegur 5 pd. lax tekin á rauða frances. (Ljósm. AMK)