Í gær höfðu verið færðir til bókar 228 laxar við Fáskrúð. Skagahollið sem nú er við veiðar og kláraði þriðju og næst síðustu vakt sína í gærkvöldi hafði þegar henni var lokið landað 13 löxum. Fyrsta vaktin gaf 4 laxa og komu þeir úr Viðauka, Laxhyl, Viðbjóð og Rauðku en gaman er að geta þess að mjög langt er síðan lax fékkst í Rauðku síðast. Önnur vaktin gaf einnig fjóra laxa og komu þeir úr Neðri Stapa, Ármótum, Efri Streng og Stebbastreng. Þriðja vaktin gaf svo 5 laxa og komu þeir úr Neðri Streng, Efri Barka, Eirkvörn og tveir úr Laxhyl.
Það má því segja að lax sé víða að finna og t.a.m var laxinn sem veiddist í Efri Barka lúsugur frá sporði og upp fyrir haus. Einnig var lús að finna á löxunum úr Efri Streng, Viðbjóð og Ármótum. Af þessum 13 löxum hafa 5 komið á flugu og hefur þeim öllum verið sleppt. Gott vatnsmagn er núna í Fáskrúð en þó tóku veiðimenn eftir töluverðum dagamun á vatninu þegar þeir héldu til veiða í gærmorgun.
Af 228 veiddum löxum í Fáskrúð hafa 179 veiðst á maðk, 38 á flugu og 11 eru óskráðir á agn. Af 38 flugulöxum hefur 18 verið sleppt aftur. Þá var 8 löxum sleppt í einu skagahollinu nú fyrir stuttu, þrem löxum í öðru fyrr í sumar og 5 löxum hefur verið sleppt á fyrstu þremur vöktunum hjá þeim sem nú eru við veiðar. Af þessu að dæma eru veiðimenn af skaganum þokkalega duglegir við að sleppa en betur má ef duga skal!
Fréttaritari var á staðnum í gær og fékk að fylgja þeim félögum Ingólfi og Kalla eftir eina vakt. Nokkrar myndir má sjá með því að smella á meira… Veiðibók fyrir árið 2009 er í vinnslu og fréttauppfærslu frá síðustu vakt þeirra félaga er að vænta í kvöld.
UPPFÆRT kl 20:00: Þá eru komnar nýjar fréttir úr dölunum. Fjórða og síðasta vaktin gaf þrjá laxa í morgun, sitthvor laxinn kom úr Eirkvörn og Laxhyl á maðk en síðan einn úr Neðri Stapa á flugu. Endaði hollið þá í 16 löxum. Alls 10 á maðk og 6 á flugu. Að sjálfsögðu var öllum flugulöxum sleppt að viðureignum loknum. Fáskrúð er þá komin í 231 lax og tímabilið tæplega hálfnað.
Mynd; Veiðifélagarnir Ingólfur og Karl landa einum silfruðum við Laxhyl 12. ágúst (Ljósm. AMK)
Fréttaritari hitti veiðimenn við Fáskrúð 12. ágúst og fékk að fylgja þeim eftir eina vakt. Við veiðar voru þeir Ingólfur og Karl ásamt Hafsteini og Heimi.
Efri Brúarstrengur fallegur í góðu vatni. (Ljósm. AMK)
Kalli sleppir einum við Laxhyl. (Ljósm. AMK)
Ingólfur kastar flugu á Laxhyl, þar var töluvert líf. (Ljósm. AMK)
Kastað á Efri Streng. (Ljósm. AMK)
Kalli búinn að setja í einn sem skvettir sér í Neðri Streng, þessum var landað stuttu síðar. (Ljósm. AMK)
Stebbastrengur gaf Hafsteini og Heimi lax um morguninn. (Ljósm. AMK)
Laxhylur er gjöfull. (Ljósm. AMK)
Ingólfur með hann á. (Ljósm. AMK)
Létt stöng fyrir línu fjögur og fluga nr. 14 …Er hægt
að b
iðja um það betra? (Ljósm. AMK)
Það var ekki leiðinlegt að sjá þann silfraða stökkva ítrekað á meðan glímt var við hann. (Ljósm. AMK)
Félagarnir tilbúnir að landa þeim silfraða. (Ljósm. AMK)
Frelsinu feginn fór laxinn aftur út í hylinn. (Ljósm. AMK)