Mjög góð veiði hefur verið undanfarnar þrjár vikur í Andakílsá. Skagaholl sem var við veiðar í gær, sunnudaginn 27. september landaði 22 löxum. Þar af fengust 20 á flugu og 2 á maðk. Mikið vatn er í kílnum og fengu veiðimenn 18 af þessum löxum frá Laugafljóti og niður undir beygju í veiðistað sem gjarnan er skráður númer 2,5.
Áin stendur þá í 649 löxum þegar enn eru tveir dagar eftir af veiðitímabilinu en veitt er út septembermánuð í kílnum. Sumarið 2008 veiddust 839 laxar á svæðinu og sló sú veiði rækilega út metveiðiárið 1975 þegar 321 laxar veiddust. Þetta er því annað besta veiðitímabilið sem nú er að ljúka í ánni frá upphafi skráninga.
Skagamenn hafa gert það mjög gott í kílnum og sem dæmi má nefna 11. september sem skilaði 33 löxum á land. Þann 15. september landaði skagahollið 30 löxum og hollið 27. september var með eins og áður segir 22 laxa. Á silungasvæðinu hafa verið skráðir til bókar 12 laxar í sumar en mjög lítið af bleikju. Mikið hefur hins vegar borið á flundru á svæðinu sem og í veiðibók.
Mikið vatn og töluverður kuldi setur mark sitt á veiðiskap í Fáskrúð þessa dagana en í gærkvöldi hafði áin náð 452 laxa veiði. Skagamenn loka nú ánni með síðasta holli sumarsins en tímabilinu lýkur miðvikudaginn 30. september.
Fluguveiði í Fáskrúð hefur aukist gríðarlega í sumar. Bara í septembermánuði hafa verið skráðir til bókar 57 laxar á flugu á móti 67 löxum á maðk og 5 löxum á spón. Af þessum 129 löxum sem skráðir hafa verið í september hefur 32 löxum verið sleppt. Sleppingar á löxum hafa aldrei verið jafn tíðar í Fáskrúð eins og á þessu veiðitímabili en betur má ef duga skal.
Ef við stiklum á stóru frá síðastliðinni viku í Fáskrúð þá vitum við að skagahollið sem veiddi frá 20 – 22. september landaði 9 löxum og slepptu veiðimenn þar af einni 3 kg hrygnu í Laxhyl. Þann 23. september á dögum SVFR veiddist svo ein 5 kg hrygna á Breiðunni sem því miður var drepin. Fimm laxar veiddust í skagahollinu 24. september, þar af þrír áætlaðir frá 3 – 4 kg í Laxhyl og var þeim öllum sleppt. Hinir tveir veiddust svo í Viðauka og Efri Streng á maðk. Reykjavíkurdagarnir 26 -28. september gáfu svo fimm laxa og þrír af þeim fengust á flugu. Einn í Neðri Barka á Sunray og tveir á Þýska Snældu í Jóku, af öllum stöðum. Öðrum laxinum þaðan var sleppt en það var 3 kg hrygna. Þann 27. september veiddust svo tveir laxar í Neðri Barka á maðk, þar af 5 kg hængur.
Netveiðibækurnar liggja sem fyrr niðri en við bindum vonir við það að birta í það minsta veiðibók fyrir Fáskrúð hér á vefnum áður en langt um líður.
Veiðistaðurinn Laugafljót í Andakílsá – gríðarleg veiði hefur verið á þessum slóðum síðustu daga (Ljósm. AMK)
Veiðimaður kastar í Neðri Stapakvörn við Fáskrúð í Dölum 27. september – Stapinn hefur gefið vel í sumar. (Ljósm. AMK)